Sambönd / Spurt og svarađ

Málamiđlun í hjónabandi?


Spurning:

Ég er gift manni sem er mjög mikil félagsvera og hefur gaman af íþróttum. Við höfum svo oft lent í ágreiningi varðandi hvað hann er mikið að heiman og hann vill ekki viðurkenna að hann sé lítið heima. Sumrin eru verst því þá er golftímabilið. Við erum svo ósátt núna að ég veit ekki hvort við komumst yfir þetta. Hann fór í golf um hverja einustu helgi í allt sumar frádregnum 3 helgum en ein þeirra var hann á fótboltamóti og aðra helgina vourm við að gifta okkur. frá því í byrjun maí þangað til um síðustu helgi hefur hann farið 28 sinnum í golf og hver ferð er 8-10 tímar í senn. Einnig er hann að æfa fótbolta 3 í viku, keppa einu sinni í viku og svo er hann í dómgæslu 1-2 sinnum í viku. Svo einnig gefur hann sér tíma til að heimsækja vini og allt það sem allir gera endrum og eins. Ég er alveg búin að fá nóg eftir sumarið, mér finnst hann ekki gefa mér né dætrum okkar neitt af sínum tíma. Er ég rugluð að vera að kvarta yfir þessu eða þarf hann að skoða sig. Honum finnst ekkert að þessu en ég kemst ekki yfir hvað þetta er mikið. Ég er alveg að gefast upp og við erum ný búin að gifta okkur. Hvað á ég að gera? Hvernig næ ég til hans til að segja að mig langi að hann eyði meiri tíma með okkur án þess að hann telji mig vera að nöldra. Eða á ég bara að labba út? Ein mjög ráðvilt.


Svar:

Sæl

Af  lýsingum þínum  að dæma (golf hverja helgi 8-10 tíma í senn, 4-6 fótboltatengdir atburðir á viku plús vinaheimsóknir) held ég að það sé óhætt að segja að maðurinn þinn sé afar virkur í að sinna sínum áhugamálum.

Þegar fólk fer í samband /hjónaband og stofnar fjölskyldu er yfirleitt talið jákvætt að það haldi tengslum við vini sína áfram og hafi jafnframt tækifæri til að sinna sínum áhugamálum að einhverju marki.

Hins vegar er gríðarlega mikilvægt að hjón séu samstíga í ákvörðunum sínum um hversu miklum tíma skuli varið utan heimilisins ( eða utan sameiginlegra athfana fjölskyldunnar).  Því getur komið upp ágreiningur ef hugmyndir parsins eru ólíkar hvað þetta varðar.  Almennt er ekki neitt viðmið um hvenær einstaklingur í hjónabandi er farinn að eyða of miklum tíma utan heimilisins, annað en það hversu mikil áhrif það er farið að hafa á hinn aðilann eða fjölskylduna í heild.

Af því sem þú skrifar ert þú greinilega orðin mjög þreytt á þessum fjarrverum hans og svo virðist sem þetta sé orðið að stóru ágreiningsefni í hjónabandinu auk þess að vera farið að bitna á börnunum.  Þú spyrð hvort þú sért rugluð að vera að kvarta yfir þessu. Ég tel að svo sé alls ekki - þú átt fullan rétt á þínum tilfinningum og í þessu tilviki virðist þú hafa mjög mikið til þíns máls - ég held að flestir geti verið sammála um að afar mikill tími virðist fara í áhugamál mannsins þíns.

Það er alltaf sárt að finna ekki samstöðu og vera í andstöðu við maka sinn hvað grundvallaratriði í hjónabandi varðar og í þínu tilfelli, þar sem það ert þú sem ert ósátt, upplifir þú það eins og þú sért að tuða.   Æskilegast væri að sjálfögðu að þið fynduð einhverja leið til að miðla málum og komast að samkomulagi varðandi hversu miklum tíma skuli varið í áhugamál utan fjölskyldunnar. Ef báðir aðilar geta orðið sammála um viðunandi tíma má komast hjá kergju eða biturð annars vegar hjá þér (yfir því að hann sé mikið fjarrverandi) og hjá honum (yfir því að hann upplifi að þú sért að banna honum að eiga sitt félagslíf).  Hins vegar talar þú um að þú náir ekki til hans eins og staðan  er í dag.  Hugsanlega gæti verið gagnlegt fyrir þig að setja eftirfarandi dæmi upp við manninn þinn: hvað myndi gerast ef dæminu væri snúið við? Hvernig tæki hann því ef það værir þú sem færir út af heimilinu allan þann tíma sem hér er um að ræða? Jafnvel gætuð þið prófað slíkt í einhvern tíma þannig að hann fengi að finna á eigin skinni hvað þú ert að ganga í gegnum.

Ef það hins vegar er lítill grundvöllur fyrir samræðum innan heimilisins eða þið finnið ekki farsæla lausn á málinu fljótlega myndi ég leggja til að þið færuð fyrr en síðar saman í ráðgjöf þar sem þriðji aðili (fjölskylduráðgjafi eða sálfræðingur) getur farið í gegnum málin með ykkur. Alla vega tel ég nokkuð ljóst miðað við þá líðan sem þú lýsir að óbreytt gangi ástandið ekki mikið lengur – og mundu að það er jafnmikið á ykkar beggja ábyrgð að hlúa að hjónabandinu og gera á því úrbætur, ekki bara þína!

Gangir þér sem allra best!

Bestu kveðjur,

Árný Ingvarsdóttir, sálfræðingur

Til baka


Svör viđ öđrum spurningumPrentvćn útgáfa 

Skođanakönnun

Hefur úlit líkama ţíns mikil áhrif á hvernig ţér líđur međ sjálfa/n ţig ?
Svarmöguleikar

Skráning á póstlista

Tölvupóstfang
Skráđu ţig á póstlista persona.is til ađ fá fréttir og tilkynningar frá okkur í framtíđinni.