Ofbeldi / Spurt og svarađ

Einelti - ábyrgđ okkar allra


Spurning:

Í sambandi við einelti, mér finnst einhvernvegin það vera þannig að gerendur séu ekki tilbúnir að viðurkenna sinn þátt og neiti ef gengið er á þá? Hvað er þá til ráða? Ég hef lennt í því að vera tekin fyrir og þeir sem gerðu það hafa verið mjög lúnkinn að snúa öllu upp á mig og fá aðra til þess að trúa því, þó svo að allir sem að málinu koma viti það að ,,gerendurnir\" gagni oft allt of langt í samskiptum við aðra. Getur verið að það sé auðveldara að samþykkja einelti heldur en að veita þolandanum stuðning? Í þessu tilviki þá hafa gerendurnir verið mjög ráðandi í þessu hóp. takk fyrir


Svar:

Sæl

Eins og ég skil spurningu þína þá hefur þú lent í einelti þar sem gerendur hafa ekki verið dregnir til ábyrgðar.

Því miður er það oft þannig að gerendur sleppa, t.d. er algengara að þolendur þurfi að skipta um skóla vegna eineltis en að gerendur séu fluttir til. Flestar forvarnir gegn einelti miða að því að hafa áhrif á allan hópinn, líta svo á að allur hópurinn (eða skólinn) beri ábyrgð. Því það eru bæði gerendur og þolendur og misjafnlega virkir meðleikarar. Stundum eru samt einhverjir sem styðja þolandann með ráðum og dáð. Þú getur séð margs konar upplýsingar um einelti í skólum á www.olweus.is en sænski sálfræðingurinn Dan Olweus hefur sett saman forvarnaráætlun gegn einelti sem er mikið notuð í skólum á Norðurlöndum og víðar. Rannsóknir sýna að það dregur úr einelti um 25-33% í skólum þar sem áætlunin er í gangi. Það sorglega er að ekki hafi tekist að draga meira úr eineltinu.

Einelti þekkist líka á vinnustöðum og er gert ráð fyrir því að Vinnueftirlitið taki á því, lög um vinnuumhverfi. Hins vegar eru úrræði Vinnueftirlitsins ekki öflug, það getur gefið góð ráð en það er háð því að stjórnendur viðurkenni vandann. Það  felst samt visst aðhald í lögum og reglugerðum því mörgum fyrirtækjum er annt um orðspor sitt og aðdráttarafl á starfsfólk. Nokkrir sálfræðingar hafa unnið í þessum málum, en þá þarf að fara eftir ákveðnum reglum til þess að allt sé skráð og staðfest. Lögmenn koma líka að þessum málum, því atvinnurekandinn getur orðið bótaskyldur. Hins vegar eru þetta mjög viðkvæm mál og sönnunarbyrðin hvílir meira á þolandanum en gerandanum. Verkalýðsfélög hafa komið að málum í sumum tilfellum, en oft eru þolandi og gerandi í sama félagi. Á ráðstefnu um einelti sem Vinnueftirlitið hélt í fyrra kom fram að á almennum vinnumarkaði var þolandinn oftast hættur hjá fyrirtækinu en þá gátu verið bótakröfur í gangi og þolandi fékk hugsanlega meðferð hjá sálfræðingi. Lögmaður sem hefur reynslu af eineltismálum sagði að oft væru þolendur eineltis andlega að niðurlotum komnir og þyrftu á sálfræðiaðstoð að halda. Hjá ríkinu þekkist einelti líka og kannanir leiða í ljós að 15-20% starfsmanna segjast hafa orðið fyrir eða hafa orðið vitni að einelti. Það hefur verið algengara hjá ríkinu en á almennum vinnumarkaði að þolendur eineltis hafa leitað réttar síns frekar en að hætta. Það hefur líka orðið vart við einelti sem stjórnendur taka þátt í eða eru upphafsmenn þar sem markmiðið virðist vera að bola þolandanum burt.

Að einhverju leyti er einelti birtingarmynd valdabaráttu, þar sem gerendur eru að tryggja yfirráð sín yfir hópnum og auðlindum. Í siðmenntuðu samfélagi er gert ráð fyrir leikreglum þar sem það á ekki að eiga sér stað. Það er á ábyrgð okkar allra að sjá til þess að leikreglurnar séu virtar, þó að það gangi misvel að temja grimmdina í manninum. Gerendur eru stundum líklegri en aðrir til þess að virða almennt ekki reglur og komast þá oft í kast við lögin. Það er minna um einelti í framhaldsskólum en grunnskólum, m.a. vegna þess að margir gerendur hafa orðið óvinsælli eftir því sem félagar þeirra þroskast. Svo virðist sem gerendur sem sjá ekki að sér verði í meiri hættu á að "fara í hundana". Þolendur finna meira fyrir kvíða og depurð sem getur orðið hamlandi í einkalífi, námi og starfi, en þrátt fyrir allt sýnist mér að þeir eigi sér frekar viðreisnar von en gerendur sem losna ekki úr hlutverkinu.

Sem sálfræðingur heyri ég stundum sögur um einelti í skóla eða vinnu, mér sýnist þessi reynsla nær undantekningarlaust skilja eftir sig sár. Það er mikilvægt að vinna úr þessari reynslu, sem m.a. getur leitt af sér félagskvíða og lágt sjálfsmat því þeir sem lenda í einelti fara oft að trúa því sem gerandinn er að reyna að troða upp á þolandann. Það er mikilvægt að öðlast aftur trú á það góða í manninum og að finna hverjir tilheyra þeim flokki. Lífið er barátta þar sem sumir beita bolabrögðum og virða ekki rétt annarra, en það er engin ástæða til að gefast upp fyrir þeim.

Með baráttukveðjum

Jón Sigurður Karlsson
sálfræðingur

www.persona.is

 

Til baka


Svör viđ öđrum spurningumPrentvćn útgáfa 

Skođanakönnun

Hefur úlit líkama ţíns mikil áhrif á hvernig ţér líđur međ sjálfa/n ţig ?
Svarmöguleikar

Skráning á póstlista

Tölvupóstfang
Skráđu ţig á póstlista persona.is til ađ fá fréttir og tilkynningar frá okkur í framtíđinni.