Tilfinningar / Spurt og svarađ

ADHD án lyfja


Spurning:

Ég tók prófið ADHD og fékk niðurstöður að ég væri með alvarleg einkenni og það kom mér ekki á óvart en ég hef verið greind hjá geðlækni en fékk engin lyf né lausn. Hvernig er hægt að ráða við athyglisbrest án lyfja?


Svar:

Sæl

Spurning þín: "Hvernig er hægt að ráða við athyglisbrest án lyfja?" Færustu sérfræðingar á þessu sviði segja að lyfjameðferðin sé fyrsti og besti kosturinn. Niðurstöður rannsókna styðja þetta eindregið. Það má hins vegar ekki gleyma að lyfin ein og sér leysa ekki öll mál, en slá á ákveðin einkenni ADHD. Lyfin virka einna helst á grunn einkennin, bæta athygli og draga úr hvatvísi með því að styrkja ferli í heila sem snúast um hömlur. Hins vegar virka þau ekki eins á margs konar vandamál sem er bein eða óbein afleiðing þessarar röskunar á heilastarfsemi. Ef ekkert er gert til að taka á þeim er meiri hætta á að áhrif af lyfjameðferðinni fjari út með tímanum, á 3 árum eða þar um bil. Rannsóknir sýna að lyfin koma að góðu gagni í 70% tilfella. Það er hægt að bæta meðferðina með fjölþættri meðferð og uppeldis- og kennsluaðgerðum ásamt sálfræðilegri meðferð, þar er hugræn atferlismeðferð og atferlismeðferð með einna bestan árangur eða öllu heldur viðbótarárangur. Mér finnst hægt að draga á ályktun að velheppnuð lyfjameðferð geri barnið móttækilegra fyrir uppeldi og kennslu, en skýr mörk og kerfi á flestum sviðum er það sem virkar best í framhaldinu. Hvað með þá sem lyfin virka ekki nógu vel á, allt að 30%: Þá er besta ráðið að reyna hitt, skipulagt, uppeldi, kennslu og (hugræna) atferlismeðferð.
Sama gildir að nokkru leyti fyrir fullorðna með ADHD. Reynslan sýnir að það dregur úr hvatvísi og ofvirkni með aldrinum, í staðinn fyrir ofvirknina kemur oft innri órói eða eirðarleysi. Án (lyfja)meðferðar lagast athyglin lítið. Áhrif lyfja eru heldur minni hjá fullorðnum. Lyfin slá á einkennin, draga úr þeim. Hlutfall þeirra sem verða mun betri með lyfjunum er ekki mikið yfir 50%. Það eru til meðferðarprogrömm fyrir fullorðna með ADHD sem lofa góðu, byggð á hugrænni atferlismeðferð auk lyfjameðferðar. Eitt slík programm hefur verið sannprófað, það virkar. Það hefur ekki enn verið rannsakað án lyfja, en það verður fljótlega því hópur þeirra sem ekki svarar lyfjameðferð kallar á það. Það er mögulegt að taka á einkennum án lyfja, það virkar í sumum tilfellum. Ég tel að í þeim tilvikum þurfi meiri tíma til þess að ná árangri án lyfja, en það er mögulegt. Þessi prógrömm sem ég var að vísa í byggjast á rannsóknum og hafa komið út meðferðarhandbækur fyrir sálfræðinga og líka í öðru tilvikinu handbók fyrir sjúklinga. Bækurnar komu út árin 2005 og 2007, þannig að þetta er það allra nýjasta sem hefur verið að gerast á þessu sviði. Vona að þetta svari spurningu þinni.
Með kveðjum

Jón Sigurður Karlsson
sálfræðingur
sérfræðingur í kliniskri sálfræði

www.persona.is

 

Til baka


Svör viđ öđrum spurningumPrentvćn útgáfa 

Skođanakönnun

Hefur úlit líkama ţíns mikil áhrif á hvernig ţér líđur međ sjálfa/n ţig ?
Svarmöguleikar

Skráning á póstlista

Tölvupóstfang
Skráđu ţig á póstlista persona.is til ađ fá fréttir og tilkynningar frá okkur í framtíđinni.