Samskipti / Spurt og svarað

Litríkur lygavefur


Spurning:

Hvað get ég gert til að hjálpa vinkonu minni. ég veit ekki nákvæmlega hvernig hægt væri að greina það sem er að henni, en ég get svo svarið að þessi hegðun er allt annað en heilbrigð. hún er sjúklegur lygari. hún lýgur hvort sem um er að ræða mikilvæga hluti eða hversdagslega. Sé hún staðin að lygum kippir hún sér ekkert upp við það heldur breytir bara sögunni án þess að blikna. hún skammast sín ekkert fyrir það. Hún átti kærasta sem hún hélt framhjá nokkrum sinnum. Hún laug að honum, hún laug að framhjáhöldunum að hún væri einhleyp og hún laug því að vinum sínum að allar sögusagnir um að hún héldi framhjá væru lygi. Svo laug hún því að framhjáhaldinu að hún væri búin að segja kærastanum frá hliðarsporunum og hann hefði fyrirgefið allt. Til að toppa allt saman stuðlaði hún svo að því að kærastinn og framhjáhaldið yrðu vinir. Að hún skyldi geta horft framan í þá báða í senn, hlýtur að bera þess vitni að hún hafi ekki iðrast neitt fyrir það sem hún gerði. Þegar þetta svo allt komst upp spilaði hún sig sem fórnarlambið í öllu saman og lék niðurbrotnu stúlkuna sem misst hafði ástina í lífinu vegna illgjarnra sögusagna. Hún heldur ennþá fram sakleysi sínu þótt sannanir séu fyrir hinu gagnstæða. Hún er ótrúlega góð í að ljúga, fólk kokgleypir allt sem hún segir, sannfæringarkrafurinn er þvílíkur. Ég held að hún virkilega trúi því sjálf að hún segi satt. Hún hefur aldrei getað átt kærasta, því hún heldur alltaf framhjá þeim. Einum þeirra sparkaði hún sjálf og sakaði hann um að hafa beytt hana ofbeldi. Sá drengur hrökklaðist í annan landsfjórðung. Nú er ég nánast sannfærð um að hún laug því upp á hann. Hún laug nauðgun upp á bróður eins kærastans síns. Það versta er að hún virkar rosalega aðlaðandi við fyrstu kynni. Hún á mjög auðvelt með að eignast bæði kærasta og vinkonur, en henni helst bara ekki á neinu af þessu fólki. Eins og staðan er í dag er nýbúin að verða sprenging, ótrúlega flókinn lygavefur komst upp þar sem inn í fléttuðust strákar og kynlíf, eins og alltaf. Eftir sig skildi hún slóð af fólki sem allt var niðurbrotið á einn eða annan hátt vegna hegðunar hennar. Allir hennar vinir eru búnir að fá nóg og hafa snúið við henni baki. Hún hefur engan nema mig og kannski tvo aðra sem langar til að hjálpa henni. Fyrsta skrefið er væntanlega að fá hana til að viðurkenna að hún hafi gert þessa hluti. Og fá hana til að viðurkenna að þeir hafi verið rangir. En hvað svo. Hvaða hjálp þarf hún?? Sálfræðihjálp vegna lygasýki?? Meðferð gegn kynlífsfíkn?? Eða geðrannsókn vegna persónuleikaröskunar?? Vona að ég fái einhver svör. Enginn i hennar umhverfi getur búið við þetta lengur. Nema kannski móðir hennar sem býr ein og trúir ennþá öllu sem einkadóttirin heldur fram. Bara svo sorglegt. Takk takk Kv Vinkona í vanda


Svar:

Sæl
Ef ástandið er þannig "enginn í hennar umhverfi getur búið við þetta lengur", þá getur verið að vinkona þín sjái að þetta gengur ekki lengur. Eftir því sem hún lendir oftar í vandræðum vegna lyganna því meiri líkur eru á því að hún átti sig. Vinir hennar geta lítið gert þangað til hún sér sjálf að hún er búin að glata trausti. Það er lítið hægt að gera til að hjálpa henni nema að neita að taka beinan þátt í lygum hennar. Þeir sem hafa sjarma geta oft komist langt, en það getur líka verið verst fyrir þá sjálfa. Litríkar persónur með frjálslega afstöðu til sannleikans geta verið skemmtilegar upp að vissu marki, fyrir þá sem þá sem flækjast ekki í lygavefnum. 
Með kveðjum
JSK 

Til baka


Svör við öðrum spurningumPrentvæn útgáfa 

Skoðanakönnun

Hefur úlit líkama þíns mikil áhrif á hvernig þér líður með sjálfa/n þig ?
Svarmöguleikar

Skráning á póstlista

Tölvupóstfang
Skráðu þig á póstlista persona.is til að fá fréttir og tilkynningar frá okkur í framtíðinni.