Samskipti / Spurt og svarađ

Ást og fjármál


Spurning:

Ég er í smá vanda með fjölskyldulífið mitt. Þannig er mál með vexti að fyrir u.þ.b. 6 árum kynntist ég þeim manni sem í dag er eiginmaður minn. Nokkuð snemma fór að bera á því að hann kunni nákvæmlega ekkert að fara með peninga. Ég hef alltaf verið frekar skipulögð í þessum efnum og átti þar af leiðandi frekar erfitt með að horfa á hann fara illa með það litla sem við áttum og unnum okkur inn fyrir. Launin okkar voru bara svona normal laun, ekkert há en samt alveg nóg til að komast af. Maðurinn minn hefur alltaf verið í sjálfstæðum rekstri, líka áður en við kynntumst en síðan þá hefur hann verið með 3 fyrirtæki sem öll hafa farið á hausinn. Heimilis reikningar hafa aldrei verið í forgangi og aldrei borgaðir á réttum tíma. Fyrst um sinn var þetta að drepa mig, ég gekk um allan daginn með endalausar áhyggjur af fjármálunum. Nánast alltaf þegar ég fékk útborgað var hann mættur á svæðið til að fá peningana ,,lánaða” og þá alltaf í tengslum við vinnuna sína. Ef ég var ekki tilbúin að láta hann hafa þá þá varð hann reiður og sagði mér að þá fengi hann ekki borgað fyrir hitt eða þetta verkið vegna þess að hann gæti ekki klárað. Svona er þetta búið að vera meira og minna. Á meðan safnar heimilið skuldum og íbúðin okkar hefur 3 sinnum verið á leið á uppboð vegna vanskilanna. Þegar við tókum saman vissi ég að sjálfsögðu að hann væri í sjálfstæðum rekstri og bað hann þess vegna um að lofa mér að heimilið yrði alltaf í forgangi og alltaf yrði borgað af því áður en farið væri í að gera annað. Samskiptin milli mansins míns og fjölskyldu minnar eru líka slæm. Foreldrum mínum er ekki vel við hann vegna þess hvernig hann hagar sér varðandi peningamál og finnst hann þar af leiðandi ekki bera hag minn og barnanna fyrir brjósti. Honum finnst aftur á móti foreldrar mínir afskiptasamir og dómharðir í sinn garð. Þetta setur heilmikið álag á okkar samband og skefur maðurinn minn ekkert af því hvað honum finnst um mitt fólk. Hann er oft reiður út í mig fyrir þetta og finnst að ég eigi að laga þetta með því standa með honum og segja þeim til syndanna. Það skiptir nánast engu máli um hvað er verið að þrátta, alltaf endar með því að ég fæ leiðinleg komment eins og ,,þú ert eins og mamma þín” ,, þú og þín fjölskylda” og margt verra sem ég ætla ekki að hafa eftir. Þetta er að gera mig vitlausa, mér finnst óþolandi að geta aldrei talað um neitt án þess að draga þurfi foreldra mína inn í umræðuna. Hann talar einnig oft við mig eins og það sem ég hef að segja sé ekki frá mér sjálfri komið heldur hafi ég verið að ræða málin við einhvern og þetta sé eitthvað sem aðrir séu búnir að sannfæra mig um. Það er eins og hann haldi að ég hafi ekki sjálfstæðar skoðanir á neinu. Ég er búin að standa við bakið á þessum manni í 6 ár en það er eins og hann kunni ekkert að meta það sem ég hef gert fyrir hann. Hann á oft erfitt með svefn, bæði að sofna og að vakna er enn erfiðara. Hann er með stórt skap sem hann hefur þó betri stjórn á en áður. En þegar hann verður reiður þá skellir hann hurðum og sparkar í hluti. Yfirleitt þá segir hann við mig ,,ef þú hættir ekki núna þá veistu hvað gerist” og svo springur hann og þá er það náttúrulega mér að kenna vegna þess að ég átti að hlíða honum og hætta en stundum fæ ég bara alveg nóg! Hann hefur talað niður til mín fyrir framan krakkana og skammað mig eins og hund oftar en einu sinni og það er mesta tabúið að mínu mati. Æ, ég gæti talið endalaust áfram en málið er líka það að ég tel að það sé eitthvað meira að hjá honum en bara stjórnsemi og frekja. Hann getur verið þvílíkt ,,hiper” þá er hann duglegur en verður nokkuð mikið áfram án þess að sjá heildarmyndina í neinu. Á þessum tímabilum fæ ég hann ekki til að hlusta og næ varla augnsambandi við hann. Svo koma verri tímabil sem vara jafnvel í marga mánuði og þá sefur hann illa, vaknar seint og er skapstór og mjög erfiður í umgengni. Auðvitað koma líka inn á milli góðir tímar en þeir vara mjög stutt. Mig vantar svo mikið ráð við því hvernig ég á að snúa mér í þessu öllu saman. Þó þetta hljómi allt voða svart þá veit ég að ég er með mann í höndunum sem hefur stórt hjarta og mikla samvisku (sé það reglulega og veit að partur af vanlíðaninni er ringulreið og samviskubit) en ég er bara orðin þreytt á þessari endalausu baráttu og langar að fara að sjá fram á betri tíma. Að lokum langar mig að þakka ykkur fyrir góðan vef :)


Svar:

Sæl

Ég mun reyna svara þér út frá tveimur sjónarmiðum:

Ef við lítum á málið út frá viðskiptafræðinni þá er ljóst að maður sem hefur sett þrjú fyrirtæki á hausinn á 6 árum er ekki hátt skrifaður. Á bak við söguna um þrjú gjaldþrot geta líka verið töpuð útlán og tapaðar kröfur þeirra sem seldu fyrirtækjunum vörur og þjónustu, e.t.v. sams konar vandræði og á þínu heimili. Það getur líka verið að þarna séu verk sem maðurinn þinn kláraði ekki. Skattar eru oft í vanskilum því þeir eru sjaldan í forgangi hjá óreiðufyrirtækjum. Ef íbúðin hefur þrisvar verið á leið á uppboð þýðir það væntanlega að hún er veðsett fyrir lánum á vegum fyrirtækja mannsins þíns. Ef þið eruð gift og íbúðin ekki séreign mannsins skv. kaupmála þá þarf konan að samþykkja veðsetningar. Samkvæmt þinni frásögn hefur þú veitt manninum fjárhagsstuðning til þess að reka fyrirtæki en það hefur ekki dugað. Samkvæmt venjulegum viðskiptalögmálum þá er þetta dæmi sem gengur ekki upp, þrátt fyrir kærleik og góðan vilja þinn.

Þá er að líta á þetta frá sálfræðilegu hliðinni:
Ef það er rétt ályktun hjá þér að maðurinn kunni "nákvæmlega ekkert að fara með peninga", þá er takmarkað hvað þú getur haldið honum lengi uppi. Það er líka ljóst að þú færð lítið til baka. Hann misnotar þig a.m.k. fjárhagslega. Foreldrar þínir bera umhyggju fyrir þér og börnum ykkar og eru væntanlega löngu búnir að sjá að tengdasonurinn er ekki fær um að sjá fyrir fjölskyldu. Maðurinn þinn á eftir að sanna það fyrir þeim að hann sé traustsins verður í fjármálum. Það líklega erfitt fyrir þau að komast að annarri niðurstöðu, ef maðurinn þinn er búinn að nota þrjár kennitölur þá telja þau væntanlega tvísýnt að honum takist að reka fjórða fyrirtækið með hagnaði.

"Ég er búin að standa við bakið á þessum manni í 6 ár en það er eins og hann kunni ekkert að meta það sem ég hef gert fyrir hann". Þú ert ekki sú fyrsta með þessa reynslu. Í sumum tilfellum blessast svona samband og rekstur af því að konan hefur peningavit og sér um fjármálin. Þá getur maðurinn einbeitt sér að því sem hann kann best, konan sér um að senda út reikninga, heldur utan um inn- og útborganir, greiðir laun, skatta og skyldur á réttum tíma, reiknar manninum og sjálfri sér laun sem reksturinn getur staðið undir o.s.frv. Ef þetta er ekki í augsýn hjá ykkur þá er spurning hvað þínar tekjur duga til að halda rekstrinum og fjölskyldunni á floti? Það sorglega er að í svipuðum tilvikum og þínum þá dugar kærleikurinn og umburðarlyndið ekki. Það er sama hvað þú leggur mikið af mörkum í peningum það er ólíklegt að hann öðlist mikið meira peningavit. Að sumu leyti getum við sagt að hann sé búinn að koma þér í eins konar "meðvirknisamband" til þess að geta haldið áfram rekstri án þess að þurfa að sýna fjárhagslega ábyrgð. Á sama hátt og meðvirknin hjálpar alkohólistanum til drekka þá lítur út fyrir að hann noti þig til að hjálpa sér til að halda áfram "sjálfstæðum" rekstri.

Það er erfitt að gera greiningu gegnum frásagnir annarra. Það getur vissulega verið eitthvað meira að hjá honum en "stjórnsemi og frekja". Ef hann er með stórt hjarta og mikla samvisku þá er tími til kominn að horfast í augu við staðreyndir, þar á meðal skort á peningaviti. Þú getur líka verið komin að þeirri niðurstöður að þinn góði stuðningur hefur ekki komið að gagni, ástin og staðreyndir viðskiptalífsins ganga sitt í hvora áttina í ykkar tilfelli. Það þarf að gera rótttækar breytingar til að þið hafið lifibrauð af rekstri mannsins.
Með baráttukveðjum
JSK

 

 

Til baka


Svör viđ öđrum spurningumPrentvćn útgáfa 

Skođanakönnun

Hefur úlit líkama ţíns mikil áhrif á hvernig ţér líđur međ sjálfa/n ţig ?
Svarmöguleikar

Skráning á póstlista

Tölvupóstfang
Skráđu ţig á póstlista persona.is til ađ fá fréttir og tilkynningar frá okkur í framtíđinni.