Kvíđi / Spurt og svarađ

Hrćđsla viđ sjúkdóma


Spurning:

Þráhyggja og árátta..sýklahræðsla! Mig vantar hjálp við óþægilegum hugsunum! Er stöðugt með kvíða um að eitthvað ami að mér og að ég geti dáið úr lífshættulegum sjúkdómi,svo sem eyðni! Þannig er mál með vexti að ég er nýbúin að vera með manni sem ég reyndar notaði smokk með en við höfðum einnig munnmök! Núna er ég svo hrædd um að ég sé komin með einhvern sjúkdóm en samt sem áður sagði hann mér að hann hefði látið athuga sig fyrir 5 mánuðum síðan og allar niðurstöður neikvæðar! Ég er að fara yfir um af paranoju um að hann hefði kannski verið að ljúga að mér af því að ég er svo hrædd við kynlíf vegna þessara sjúkdóma sem ég fæ algjörlega á heilann! Er líklegra að þetta sé bara minn kvíði eða finnst ykkur líklegt að einhver fari að ljúga svona löguðu? Kvíða-konan


Svar:

Sæl

Ef þú ert stöðugt hrædd við að vera komin með alvarlegan sjúkdóm, hefur fundið fyrir þessari hræðslu í nokkra mánuði og ert jafnvel stöðugt að leita að staðfestingu á því að vera komin með sjúkdóm eða hræðist mikið einkenni eins og höfuðverk, magaverk eða annað þá er mögulegt að þú sért með heilsukvíða. Ég læt fylgja hér með stuttan pistil um heilsukvíða sem þú ættir að lesa. Ef þú kannast við þig í þeirri lesningu þá gæti verið gott fyrir þig að leita aðstoðar sérfræðings, læknis, geðlæknis eða sálfræðings til að fá greiningu og ráðleggingar. Meðferð við heilsukvíða felst aðallega í samtalsmeðferð, lyfjagjöf eða hvoru tveggja og hún hefur gefið mjög góða raun.

Gangi þér vel, Eggert S. Birgisson, sálfræðingur.

 

Heilsukvíði

Heilsukvíði er flokkaður sem líkömnunarröskun og aðaleinkenni heilsukvíða er ótti eða fullvissa um að vera með alvarlegan sjúkdóm. Þessi ótti eða fullvissa er til staðar þó engin merki um sjúkdóm sjáist við ýtarlegar rannsóknir og þrátt fyrir fullyrðingar lækna um að enginn sjúkdómur sé til staðar. Óttinn tengist skynjun hversdagslegra líkamlegra einkenna sem túlkuð eru sem einkenni alvarlegs sjúkdóms.
Hverslags eðlileg líkamleg einkenni geta orðið tilefni til mikils kvíða hjá þeim sem er með heilsukvíða. Það getur verið hraður hjartsláttur, sviti, lítil sár, hósti eða höfuðverkur.
Þannig getur sá sem haldinn er heilsukvíða túlkað höfuðverk sem ótvírætt merki þess að hann sé með heilaæxli. Þó að viðkomandi sé fullvissaður um það af lækni sínum eftir að hafa farið í ítarlega læknisskoðun og heilaskönnun að engin merki sjáist um heilaæxli þá dugir sú hughreysting skammt og eftir stuttan tíma er hann eða hún oft komin til annars læknis til að athuga hvort sá finni ekki heilaæxlið.
Fólk með heilsukvíða getur orðið kvíðið um eigin heilsu af því að lesa um eða heyra um alvarlega sjúkdóma eða ef einhver sem það þekkir greinist með sjúkdóm. Lesi sá sem er með heilsukvíða til dæmis um alvarlegan sjúkdóm þar sem eitt af einkennunum er doði í útlimum fer sá hinn sami strax að athuga hvort hann finni fyrir doða í útlimum. Geri hann það túlkar hann það sem einkenni þessa alvarlega sjúkdóms og kvíðinn eykst til muna. Þess má geta í þessu sambandi að leiti fólk að ákveðnum líkamlegum einkennum hjá sér er ekki ólíklegt að það finni þau en tæki að öðrum kosti ekki eftir þeim. Athyglin gerir það að verkum að fólk tekur eftir ýmsum tilfinningum í líkamanum sem það alla jafna tæki ekki eftir. Þeir sem vilja geta sannreynt þetta með því að beina athygli og sjón að lófa sínum í eina til tvær mínútur og athugað hvað gerist. Venjulega finnur fólk til doða eða seyðings í lófanum við þetta.
Áður fyrr gekk heilsukvíði undir nafninu ímyndunarveiki (hypochondriasis), það nafn er reyndar enn við lýði en heilsukvíði þykir lýsa röskuninni betur. Að kalla röskunina ímyndunarveiki gefur nefnilega til kynna að einkennin sem fólk finnur fyrir séu ímyndun ein. Einkennin eru það þó ekki, þau eru til staðar, en kvíðinn sem þau valda er óeðlilegur.
Talið er að um 1% til 5% fólks sé með heilsukvíða. Heilsukvíði getur byrjað á hvaða aldri sem er en algengast er að hann byrji snemma á fullorðinsárum og sé langvinnur. Kvíðinn getur verið mismikill og er venjulega meiri þegar álag í lífi fólks er mikið. Heilsukvíði er ekki lífshættulegur sjúkdómur en fólk sem hefur verið með heilsukvíða í langan tíma er í talsvert meiri sjálfsvígshættu en aðrir.
Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að hugræn atferlismeðferð gagnist vel við heilsukvíða en það er háð því að fólk sé tilbúið að skoða þann möguleika að þau líkamlegu einkenni sem það finnur fyrir stafi af öðru en alvarlegum eða lífshættulegum sjúkdómi.

 

Til baka


Svör viđ öđrum spurningumPrentvćn útgáfa 

Skođanakönnun

Hefur úlit líkama ţíns mikil áhrif á hvernig ţér líđur međ sjálfa/n ţig ?
Svarmöguleikar

Skráning á póstlista

Tölvupóstfang
Skráđu ţig á póstlista persona.is til ađ fá fréttir og tilkynningar frá okkur í framtíđinni.