Sambönd / Spurt og svarađ

Ráđvillt


Spurning:

Eg er þrítug og hef aldrei verið í sambandi svo heitið geti. ég er ágætlega myndarleg og er í góðu starfi og hef margt til brunns að bera þótt mínir helstu gallar séu feimni og ég á það til að vera lokuð þegar ég er innan um fólk sem ég þekki lítið eða ekkert. ég hef einu sinni verið ástfangin, sambandið stóð þó einungis yfir í nokkra mánuði og endaði þegar ég komst að því að hann hélt framhjá mér. átti m.a.s. tvö viðhöld en ekki bara eitt. ég var mjög lengi að ná mér eftir þetta því ég hélt að þetta væri eitthvað sem mundi endast lengi. þetta var semsagt fyrir 6 árum. fram að þeim tíma hafði ég einungis kynnst strákum sem vildu ekkert annað en kynlíf og undanfarin 5-6 ár hefur það eiginlega verið eins. Ég hef heyrt setninguna \"ég er ekki á leið í samband en ég er til í að sofa hjá þér\" óteljandi sinnum. Þetta getur verið niðurbrjótandi til lengdar, manni finnst maður vera einskis nýt, óáhugaverð manneskja og mér hefur oft fundist eins og enginn hafi áhuga á að kynnast mér, bara sofa hjá mér. því það er í raun það eina sem ég hef fengið að heyra. Svo fyrir ca 2 mánuðum kynntist ég einum í gegnum netið. Okkur kom strax mjög vel saman, við fórum mjög hægt í hlutina og ég sá strax að hann var að leita að sambandi eins og ég. Við eigum margt sameiginlegt, höfum svipaðar lífsskoðanir og náum mjög góðu sambandi. ég fann það strax að þetta var eithvað sem var þess virði að halda áfram. Og hann líka. Við töluðum oft þannig eins og planið væri að vera saman áfram og að þetta væri ekkert stundargaman, plönuðum að fara að stunda saman áhugamál o.þ.h. Síðan kemur upp atvik sem var þannig að hann bauð mér heim til sín í mat. Vinafólk hans (2 manneskjur) koma síðan í heimsókn síðar um kvöldið og planið var að kíkja útá lífið. Ég þekkti þetta fólk ekkert og þau voru bæði svakalega hress og opin (en það er ég ekki svona við fyrstu kynni). ég var illa upplögð´fyrir djamm og vildi helst að við hefðum bara verið tvö því upphaflega planið var þannig. ég fékk mér í glas og reyndi að koma mér í eitthvað stuð en ég var slöpp, nýbuin að vera lasin, illa sofin og bara alls ekki nógu vel upplögð fyrir þetta. Svo kom að ég ákvað að láta þetta gott heita og fara heim. Eftir þetta kvöld breyttist hann mjög. hann hætti að hringja og koma og vildi lítið sem ekkert tala við mig. ég fékk hann að lokum til að koma og ræða þetta og þá kom í ljós að hann var mjög sár yfir að ég skyldi hafa farið og sagði að þetta hefði litið svo illa út. ég bara áttaði mig ekki á því hve leiðinleg ég var við hann, auðvitað leit þetta illa út að ég skyldi allt í einu fara heim en ég útskýrði fyrir honum hvers vegna ég fór og að lokum virtist hann sættast við mig. hann sagði mér að hann væri á leið erlendis til að vinna í rúman mánuð og sagði jafnframt að hann vildi taka upp þráðinn að nýju þegar hann kæmi aftur heim. Ég var auðvitað mjög ánægð með það. Helgina áður en hann fór út spurði ég hann hvort hann vildi hittast um kvöldið og hann játti því. ég ákvað að bjóða honum í mat en fór það svo að ég var með máltið fyrir tvo á borðinu en sat ein allt kvöldið og beið. Hann kom aldrei. Svaraði ekki skilaboðum né símtölum. Ég sendi honum sms og sagðist vera frekar sár því ég hafði frekar mikið fyrir þessu kvöldi. Vildi að við værum aftur orðin alveg sátt þegar hann færi erlendis. Hann svaraði loks daginn eftir og sagðist vera veikur og að hann hafi sofið af sér allan daginn og kvöldið. En hann virtist ekki skilja af hverju eg var sár og svekkt og snéri þessu við þannig að ég var sökudólgurinn fyrir það eitt að hafa látið í ljós óánægju með að hafa ekki einu sinni verið látin vita að hann kæmi ekki. Hann gerði ekkert rangt og fannst hann ekki vera skyldugur til að láta mig vita að hann kæmi ekki, vitandi að ég var að bíða eftir honum. Svo fór hann til utlanda og sagði í sms nú fyrir stuttu þegar ég spurði hvernig staðan væri að hann væri nú óákveðinn hvort hann vildi taka upp þráðinn að nýju þegar hann kæmi heim. Ég veit að hann sá ekki sólina fyrir mér áður en þessi leiðindi komu upp (og það var eins með mig), hann hringdi í mig daglega og gisti oft hjá mér og þetta var bara tóm hamingja. Er þetta allt mér að kenna? er það að ég skyldi hafa farið heim þarna úr partíinu virkilega svo alvarlegt mál?(ég bað hann afsökunar og sagðist sjá mjög eftir því að hafa farið, hefði átt að vera áfram af tillitssemi við hann)Mér hefur liðið eins og ég hafi gert eitthvað hræðilegt. Þarf virkilega ekki meira en þetta til að eyðileggja svo frábært samband? Ég bara kann ekki nógu vel á svona sambandsmál, hef svo litla reynslu af þessu. mig langar svo að vita hvernig ég get sannfært hann um að þetta sé þess virði að halda áfram, það er ekki oft sem maður kynnist einhverjum sem maður nær svona góðu sambandi við. ég er frekar óörugg með mig svona af fenginni þeirri reynslu sem ég minntist á í upphafi og finnst að ef eg næ honum ekki aftur þá verði ég bara alltaf ein og hitti aldrei neinn. á ég að láta hann algjörlega i friði og sjá hvað setur þegar hann er kominn aftur eða á ég að senda honum tölvupóst (sem mig langar mikið til að gera) og segja honum hvað mér finnst og reyna að sannfæra hann um að láta reyna á þetta aftur. Við höfum svosem engu að tapa á því. En gætum haft miklu að tapa ef við reynum ekki... Ráðvillt.


Svar:

Sæl Ráðvillt,

Eins og þú lýsir í bréfi þínu getur það verið afar flókið mál að fóta sig í nýjum samböndum.  Þegar við finnum loks einhvern sem okkur lýst á byrjar ferli þar sem  allt er nýtt og spennandi og við þurfum að læra að umgangast alveg nýja manneskju.  Yfirleitt er því best að gefa sér ágætis tíma til að kynnast og átta sig á hinum einstaklingnum í sambandinu og hvort maður geti séð fyrir sér að eyða löngum tíma með viðkomandi. 

Nú til dags er þetta allt saman orðið afar flókið og leyfir fólk sér mun meira í sambandsmálum en áður tíðkaðist.  Þetta gerir það að verkum að það getur verið talsvert flókið að "finna" einhvern sem maður getur hugsað sér að vera með og enn flóknara að láta það svo endast.  Í þessum málum eru því til afar mörg ráð sem geta gagnast en enginn heilagur sannleikur.  Í mínu starfi hef ég þó séð að þegar það kemur að því að finna einhvern eru nokkrir þættir sem skipta afar miklu máli.  Einna fremstur þessara þátta er sjálfsálit en þegar við erum ánægð með okkur sjálf þá sést það og skilar sér aftur til okkar.  Annað sem skiptir máli og helst í hendur við sjálfsálitið er ró.  Flest könnumst við að þegar við virkilega leitum að einhverju gengur okkur jafnan verst í leitinni.  Leitin framkallar örvæntingu sem gerir okkur blind á einföldustu lausnina.  

Í þínu tilfelli virðist sem reynslan hafi framkallað ákveðna örvæntingu hjá þér sem er vissulega skiljanlegt.  Í kjölfarið kemst þú svo í þetta samband en ert óviss og óframfærin.  Það hljómar af bréfinu þínu eins og þú hafir leyft honum að vaða yfir þig að ákveðnu leiti og ekki staðið nógu fast á þínu.  Það er aldrei gott að gefa algjörlega eftir í sambandi og þykjast þannig vera eitthvað annað en maður er.  Í nýju sambandi þarf maður vissulega að geta brugðist við nýjum hlutum og verið tilbúin að prófa ýmislegt en þó verður maður ávallt að vera samkvæmur sjálfum sér til þess að veita væntanlegum maka tækifæri til að kynnast manni rétt eins og maður vill fá að kynnast makanum.

Ef þú vilt láta reyna aftur á þetta samband er ekkert sem mælir gegn því að þú hafir samband við hann en þó er afar mikilvægt að þú takir rétt skref og passir upp á sjálfa þig.  Til þess að passa sjálfa þig gerir þú kröfur til hans og sjálfrar þín sem þú miðar við þegar þú ert að meta sambandið. Alveg óháð því hvað þú gerir varðandi þetta samband tel ég afar mikilvægt fyrir þig að endurmeta stöðu þína og skoða hvað þér finnst um sjálfa þig.  Þú verður einnig að reyna að finna ró og trú á því að með tímanum munir þú finna einhvern sem verðskuldar þig.  Ef þér finnst þetta verkefni vera þér ofviða myndi ég mæla með að þú ræddir við sálfræðing þar sem það gagnast oft að fá álit annars á stöðuna og geta sálfræðingar hjálpað þér að styrkja sjálfsmyndina og finna innri ró.

Vonandi hjálpaði þetta svar þér eitthvað.  Endilega hafðu samband aftur við okkur ef þú hefur frekari spurningar.

 

Gangi þér vel,
Eyjólfur Örn Jónsson
Sálfræðingur

 

 

Til baka


Svör viđ öđrum spurningumPrentvćn útgáfa 

Skođanakönnun

Hefur úlit líkama ţíns mikil áhrif á hvernig ţér líđur međ sjálfa/n ţig ?
Svarmöguleikar

Skráning á póstlista

Tölvupóstfang
Skráđu ţig á póstlista persona.is til ađ fá fréttir og tilkynningar frá okkur í framtíđinni.